Sérðu ekki skóginn fyrir trjánum Gunnar!

gunnar

Mikið skelfing er þetta Heiðmarkarmál sorglegt. Þegar Idda fermdist sagði presturinn við hana “Vertu trú yfir litlu og Guð mun gefa þér lífsins kórónu”. Eftir því sem Idda eldist sér hún alltaf betur og betur sannleikan í þessari setningu. Hún er reyndar löngu gengin af trúnni, en hefur samt lært það að það sem menn eru í smáu eru þeir í stóru.

Þessar framkvæmdir í Heiðmörk eru vasaútgáfa af  því hvernig framkvæmda aðilar ganga um náttúruperlur landsins. Það breytir engu þótt þarna sé viðkvæmt vatnsverndarsvæði sem þjónar hundruðum þúsunda manna (þar lét verktakinn hund sinn ganga lausan  mígandi og skítandi) og skórækt  þar sem sjálfboðaliðar, konur og karlar, börn og gamalmenni, hafa varið fjölda sjálfboðastunda til að klæða landið skógi. Það er vaðið yfir þetta allt á skítugum skónum af slíkri lítilsvirðingu að það hálfa væri nóg. 

Svo skilja þessir karlar ekki neitt í neinu. Sjálfur bæjastjórinn hefur orðið uppvís af ósannsögli í málinu og nú kemur í ljós að hugsanlega er verktakinn uppvís að þjófnaði. Að vísu er einhver embættismaður dreginn fram í dagsljósið þegar að lögreglan mætir á staðinn og látinn sverja að hann hafi gefið verktakanum skipun um að flytja þessi tré þennan langa veg. Hljómar ekki sannfærandi.

Nú er umræðan búin að standa um málið á aðra viku og margir grátið trén stórum tárum í fjölmiðlum. Maður hefði haldið að þessi embættismaður hefði átt að láta heyra frá sér fyrr. Það er alla vega skrýtið að hann skríður ekki undan steini fyrr en lögreglan er búin (án hans hjálpar) að finna þessi tré. Samt hefði hann mátt vita að þeirra væri leitað enda komu fram yfirlýsingar í gær að grunur léki á að þau hafi verið hirt.

Idda ólst upp í sjávarþorpi þar sem karlar fóru til sjós en konur unnu í frystihúsinu. Það liggur því unaðsleg “peningalykt” yfir öllum æskuminningum hennar. Iddu lærðist líka snemma að til væri tvennskonar fólk. Þeir sem óðu á fiskigallanum inn í stofu hjá sér og hinir sem fóru úr honum í vaskahúsinu. Það var tvennt ólíkt að heimsækja þessi heimili. Því miður virðist það vera normið hjá íslenskum verktökum að vaða í skítugum slorgallanum yfir allt og alla.

Idda gefur ekkert fyrir yfirlýsingar verktakans að svona hafi orðið að gera þetta. Hún hefur búið erlendis í mörg ár og fylgst með hvernig í siðmenntuðum löndum verktökum er gert að vinna eins og menn. 

Við Gunnar Birgisson vil Idda bara segja SKAMMASTU ÞÍN!!

Með skógræktarkveðjum - Idda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm...og hana nú.  Man eftir málara, sem var alltaf í hvítum slopp eins og læknir en sást aldrei á honum sletta.  Þetta er hægt ef menn eru vakandi fyrir því hvar þeir eru staddir.  Annars held ég að þetta sé týpískt dæmi um beurocratískt sambandsleysi, sem einkennir hinn opinbera geira. Þegar klúðrið er uppvíst þá hrökkva allir við eins og krakkar í kökudúnki og reyna að benda á blóraböggla.  Af hverju er verið að geyma kökurnar, þar sem börn ná til? Lyktin var svo góð! Ég var svangur! Það var enginn búinn að segja að þetta mætti ekki? Ég fékk mér bara aaaðeins. Gunni sagði mér að gera þetta. Guð sagði mér að gera þetta. Það hvíslaði lítill púki í eyrað á mér. Ég ætlaði bara að skoða. Ég ætlaði að láta kökurnar í aftur. Ég var bara að telja þær. Þetta var óvart. Hvaða tilfinningasemi yfir einhverkju smá.... 

Kannast við trendinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.2.2007 kl. 01:18

2 Smámynd: Idda Odds

Einu sinni var ég vitni að framkvæmd í viðkvæmu umhverfi. Þar var strengd lína í kringum framkvæmdarsvæðið. Verktaka var gert að halda sig innan línunnar. Þeir máttu ekki einu sinni leggja frá sér hamar handan við hana. Mér virtist þeim ætlað lítið svigrúm. Verkið gekk ágætlega, var klárað á réttum tíma og kostnaður var eðlilegur. Þetta var bara spurning um verklag. Það er ekki endilega hagkvæmt eða skilvirkt að vera sóði. Held reyndar hið gagnstæða. Idda

Idda Odds, 20.2.2007 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband