Táfýlukarlaflokkurinn

Old ManIdda vaknaði hálf timbruð í morgun. Ekki miskilja, hún var ekkert að drekka í gærkveldi enda haldið sig frá áfengi í nokkur ár eftir að hann Gúndi í Skjólinu særði úr henni Bakkusdjöfulinn með “óhefðbundnum” afeitrunaraðferðum (það var að vísu sjokk fyrir Iddu að frétta að Gúndi var ekki með afeitrunarréttindi en hann var með rosalega flottar græjur. Allrahanda ólar og tæki til að hemja áfengisfíknina).

Nei, þetta voru andleg timburmenni. Svona lík þeim sem maður fær þegar maður hefur loksins sagt einhverjum meiningu sína og látið viðkomandi finna til tevatnsins (hvað sem það nú þýðir) en fær svo alveg bullandi samviskubit yfir því að vera svona ónærgætin og tilfinningalaus. Skyldi þetta vera atvinnusjúkdómur bloggara. Allavega vil ég biðja alla bloggara afsökunar. Þetta er þjóðþrifa iðja og lífsnauðsynleg fyrir andlegt jafnvægi þjóðarinnar. Það er mjög holt og gott að menn geti fengið útrás á almannafæri með þessum hætti. Hugsanlega myndi þetta annars brjótast út í ofbeldisverkum um helgar þegar menn fara út að skemmta sér.

Nema hvað. Sá í blaðinu í dag að fylgi Frjálslynda flokksins er komið niður í 3%. Da! Kemur þetta einhverjum á óvart? Hef verið að fylgjast með þeim hræringum sem þar hafa gengið yfir. Sérstaka athygli mína vekja myndir frá samkomum þessa flokks. Ekki beint áhugavert lið. Samansafn af miðaldra körlum með fýlusvip. Lífsþreyttir og alveg örugglega hræddir við lífið.  Ef einhver vill vita hvað kjörþokki er þá finnur sá hinn sami hann ekki á þessum myndum. En viti menn, ein stjarna skein innan um þessa grámyglu. Nefnilega hún Margrét Sverrisdóttir. Falleg kona og gáfuð. Hugsanlega hefur skin hennar verið skærari en ella vegna alls þess andlega svartnættis sem í kringum hana var.

Margrét höfðaði til hógværra meðlima flokksins. Fólks sem stendur engin sérstök ógn af pólsku konunni sem vinnur á kassanum hjá honum Jóhannesi í Bónus eða pólska stráknum sem er alltaf að tala við elskuna sína í Pólandi í peningasímanum í sundlauginni. Hún höfðaði líka til okkar kvenna – við erum jú helmingur af kjósendum. Hún höfðaði líka til sæmilega (sið) menntaðra manna og kvenna sem byggja Suðvesturhorn landsins (sem geymir jú stærstu kjördæmi landsins). Held reyndar að hún sé ekki með leigubílstjórafylgið sem er alltaf að hringja í Útvarp Sögu.

“Hvað ert þú að vilja upp í brú stelpa” sagði karlinn í brúnni. “Burt, burt með þig sagði hann” og honum varð að ósk sinni. Með henni fór fylgið. Nú geta táfýlukarlarnir unað glaðir við sitt. Gert úr flokknum það sem þeir vilja og boðið erfðarprinsinn hann Jón Magnússon velkominn og allt það sem honum fylgir. Við kjósendur ætlum hins vegar ekkert að trufla þá með okkar nærveru.

Áfram Magga

Kv. Idda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eittraðar örvar en því miður assgoti nærri sanni. Orðið frjálslyndi virkar eins og háð og öfugmæli í þessum hópi gamalla prumpa.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.2.2007 kl. 05:33

2 Smámynd: Idda Odds

Jamm, prakkari oft ratat kjöftugum satt orð á munn. Það á víst við um mig. Ég tala svo mikið að fyrr eða seinna segi ég eitthvað af viti.

Idda 

Idda Odds, 18.2.2007 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband