Hvað er líkt með tómum tunnum og umhverfisstefnu Samfylkingar?

s0408557349

s3112544809

Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki beint snjallasti hópur sem um getur í veraldarsögunni. Sumir hafa meira að segja kveðið upp um hið gagnstæða í mín eyru. Eitt er víst að þeim hefur tekist frekar illa að lesa hið pólitíska landslag undanfarin ár. Eitt gleggsta dæmi þessarar pólitísku eyðimerkurgöngu er blessuð Samfylkingin.

Samfylkingarmenn settu sér það markmið að verða fjöldahreyfing miðju- og vinstrimanna sem stefnt var gegn ægisvaldi Sjálfstæðisflokksins. Í marga áratugi hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert út á klofning á vinstri vængnum. Mörg atkvæði vinstrimanna lágu óbætt hjá garði vegna þess að þau dreifðust of mikið. Á þessu vildu menn vinna bót.

Til að ná þessu marki urðu Samfylkingarmenn að skilgreina ákveðna málaflokka sem hægt væri að setja á oddinn og ná sátt um. Þetta virtist létt verk í fyrstu en raunin var önnur og eftir áratuga þrautagöngu flokksins hefur ekki enn tekist að samstilla raddir hvað þá heldur að fá kórfélaga til að kyrja sama sönginn.

Holdgerfingur hinnar einföldu sálar – Íslenski kjósandinn – stóð eftir ringlaður. Hvað hjáróma kór var þetta eiginlega? Það sem verra var að ekki tókst heldur að velja rétt þá málaflokka sem ná átti samstöðu um. Umhverfismál voru t.d. ekki eitt af þessum málum. Umhverfismál voru m.ö.o. metin sem jaðarmál sem ætti ekki erindi inn í breiðfylkingu eins og Samfylkinguna. “Við erum ekki umhverfisflokkur” sagði vinur minn um Samfylkinguna þegar ég fyrir nokkrum árum auglýsti eftir stefnu þess flokks í þessum málaflokki. Þetta var sem sé í hugum forvígismanna flokksins jaðarmál sem VG mátti eiga (eins og herstöðvarmálið og ýmis önnur mál).

Gallinn var bara sá að þetta var ekki jaðarmál í hugum þorra manna. Það sem meira var að þessi mál brunnu á fólki í öllum flokkum (ekki hvað síst í Sjálfstæðisflokkinum). Stór hópur Íslendinga ferðast á hverju ári um víðerni þessa lands og hefur sterkar taugar til þessarar náttúru. Ég geng svo langt að segja að hinn dæmigerði Íslendingur skilgreini sjálfan sig út frá þessu umhverfi sem hann sprettur úr. Það er því stór og mikilvægur hluti af sjálfsmynd hans – árás á umhverfið er árás á hann.

Það var bara VG sem bar gæfu til að halda höfði í þessum málaflokki og njóta þeir nú ávaxtanna af þeirri stefnufestu. Á sama tíma situr Samfylkingin eftir með sárt enni og rembist eins og rjúpan við staurinn við að endurskilgreina sig sem umhverfisflokk. En það er tómahljóð í þeirri tunnu. Kárahnjúkar – stærsta umhverfisslys Íslandssögunnar – hefðu ekki orðið að raunveruleika hefði ekki komið til þeirra stuðningur og þáttur þeirra í því máli á sveitarstjórnarstiginu er eiginlega enn verri en Framsóknar sem þó er oftast kenndur króinn.

Nýjustu fréttir sýna litlar breytingar. Formaðurinn hrópar úr pontu þingsins “Enga stækkun í Straumsvík” á sama tíma og flokkssystkin hennar í bæjastjórn Hafnarfjarðar róa öllum árum að því að koma þessari stækkun í gegn. Getur einhver tekið mark á þessu fólki?

Afleiðingarnar eru þær, að frá upphafi Guðskristni hefur varla sést til eins vegviltra manna eins og forustu Samfylkingarinnar þessa dagana. Hver sá sem getur fundið upp pólitískt GPS-tæki fyrir þetta fólk væri auðfúsa gestur á því heimili.

Umhverfisverndarkveðjur Idda   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband